Margrét M. Norðdahl
Myndlistarkona
Margrét er listakona með BA í Sjónlistum og M.A.-gráðu í listkennslu.
Margrét hefur starfað við myndlist frá árinu 2001. Hún er stofnandi Listvinnslunar. Hún er kennari við Fjölmennt, símenntunar og endurmenntunarmiðstöð fyrir fatlað fólk og stundakennari við Listaháskóla Íslands. Margrét er varaformanneskja stjórnar Listahátíðar í Reykjavík og stjórnarkona hjá List án landamæra.
Áður var hún framkvæmdastýra og listrænn stjórnandi Listahátíðarinnar List án landamæra, deildarstýra Myndlistarnáms fyrir fatlað fólk í Myndlistarskólanum í Reykjavík og stjórnarkona hjá Safnasafninu á Svalbarðsströnd.
Margrét hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún hefur staðið fyrir og stjórnað fjölda menningar- og listviðburða, sýningarstýrt sýningum og hefur haldið marga fyrirlestra og erindi um inngildingu í listheiminum á mismunandi vettvangi lista, menntunar og fötlunar hérlendis og erlendis. Hún hefur kennt börnum og fólki á öllum aldri bæði list og jóga.
Hún er vön fundarstjórn og ýmissi rýnivinnu og skrifum.
M.A.-ritgerð hennar byggir á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á möguleikum fatlaðs fólks á sviði lista.
Hún hefur hlotið einstaklingsverðlaun ÖBÍ - Öryrkjabandalags Íslands fyrir störf sín að inngildingu í listum, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar ásamt List án landamæra og Múrbrjót Landssamtaka Þroskahjálpar í tvígang ásamt List án landamæra og Myndlistaskóla Reykjavíkur og Frikkann heiðursverðlaun Átaks, félags fólks með Þroskahömlun.
Margrét er framkvæmdastýra og ráðgjafi hjá Listvinnslunni.